Þorgerður Ólafsdóttir (1985) lauk meistaranámi í myndlist frá Glasgow School of Art vorið 2013 og útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Hún hefur sýnt verk sín m.a. á Glasgow International (GI), Listasafni Reykjavíkur, Harbinger gallerí, Catalyst Arts í Belfast og Scandinavia House í New York.

Viðfangsefni Þorgerðar eru gjarnan manngerð og náttúruleg fyrirbæri. Hún hefur áhuga á kerfum og táknum sem notuð eru til þess að lýsa og koma skikkan á umhverfi okkar. Í nýlegum verkum hefur hún verið að samtvinna hugmyndir úr fornleifafræði við eigin rannsóknir og tilvist staða, og hvernig frásagnir birtast oft í brotakenndum og afstæðum hlutum.